m
Um Tónfræði.is

Um Tónfræði.is

Góð tónfræðiþekking er einn aðalgrundvöllur þess að ná árangri í hljóðfæraleik, að skilja hvað liggur að baki nótunum og tónverkunum, að tónflytja, leika eftir eyranu og svo margt fleira. Þó eru margir nemendur sem finnst tónfræði leiðinleg og að það hljóti að vera til áhugaverðari leiðir en að vinna í gamaldags vinnubókum.

Þar kemur tónfræði.is til skjalanna og býður upp á gagnvirk vinnublöð í tónfræði, til þess að veita aðra aðferð til að læra, að nota tæki eins og spjaldtölvur eða síma og jafnvel til að virka leikjagleði því nemandinn keppist við að gera verkefnin þar til hún eða hann eða hán hefur náð 100% árangri með þau.

Öll vinnublöðin eru sett upp þannig að tölvan fer sjálfkrafa yfir verkefnið og gefur einkunn og nemandinn getur sjálfur ákveðið að reyna aftur og aftur og aftur. 

Við tökum fram að besta leiðin til að læra tónfræði er enn með kennara í stofunni sem útskýrir leyndardóma tónfræðinnar og að sjálfsögðu þurfa allir nemendur að venjast því að skrifa ákveðna hluti niður, að teikna lykla og slíkt. Þessi gagnvirku verkefnablöð eru hugsuð sem viðbót við slíka kennslu og bjóða nemendum upp á að æfa sig á eigin forsendum, jafnt í tónlistarskólanum sem á heimilinu.

Umsjónarfólk

Á bakvið vefinn standa Dr. Bragi Þór Valsson og Christina van Deventer. Þau sjá um alla þróun, hönnun, forritun og prófanir verkefnablaðanna auk allrar hönnunar vefsins.

Styrktaraðilar

Upphafleg hönnun, uppsetning vefsins og þróun, forritun og uppsetning fyrstu 34 verkefnanna var styrkt af Starfsmenntunarsjóði Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT).

Þróun, forritun og uppsetning 12 viðbótarverkefna var styrkt af byggðaþróunarverkefninu Sterkum Ströndum.

Þróun, forritun og uppsetning 28 viðbótarverkefna fyrir nemendur í tónmennt í grunnskólum var styrkt af Þróunarsjóði námsgagna.

Þróun, forritun og uppsetning 9 verkefnablaða fyrir miðprófsnemendur í tónfræði var styrkt af Námsefnissjóði Sítón og Menntamálaráðuneytisins.

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s