d
Tónlistarsaga – Klassíska tímabilið – Upplýsingar
Sögustund

Tónlistarsaga

Klassíska tímabilið

Klassíska tímabilið: Frá um það bil árinu 1750 til ársins 1830.

Klassíska tímabilið kom á eftir barokktímabilinu og næsta tímabil á eftir er kallað rómantíska tímabilið.

Á þessu tímabili þróuðust mörg eldri hljóðfæri töluvert og eins voru fundin upp alveg ný hljóðfæri. Þess vegna var mikilvægt að hægt væri að stilla hljóðfærin þannig að þau spiluðu öll tóna í sömu tónhæð (því annars myndu þau hljóma falskt miðað við önnur hljóðfæri). Því var fundin upp svokölluð jafnstilling (kölluð „equal temperament“ á ensku). 

Hljómborðshljóðfærið sem tók við á þessu tímabili af sembalnum hét fortepiano (sem þýðir „sterktveikt“). Það hljóðfæri notaði hamra til að slá á strengina, í staðinn fyrir búnaðinn sem hafði plokkað strengina á sembalnum.

Vinsæll stíll í tónlist á klassíska tímabilinu er kallaður galant stíllinn. Tónlist í þeim stíl var hómófónísk (laglína með undirleik), oft skreytt með allskyns skrautnótum eins og til dæmis trillum og svo var hún oft létt og hressileg. Tónlist í galant stílnum notaði oft Alberti bassa, var með skýra niðurlagshljóma (til dæmis hálfenda, fullkomna enda og gabbenda). Eins var yfirleitt mjög skýr munur á milli einleikara og hljómsveitar.

Hljómsveitir höfðu núna stækkað miðað við hljómsveitir á barokktímabilinu. Hljóðfærum hafði semsagt fjölgað og það voru fjölbreyttari hljóðfæri í hljómsveitinni. Þetta gerði það að verkum að tónstyrkur hljómsveitarinnar var meiri og einnig hafði hún nú víðara tónsvið, enda búin að eignast hljóðfæri sem gátu spilað mjög djúpa tóna og önnur hljóðfæri sem gátu spilað mjög háa tóna.

Hljóðfærið fortepiano
Barnungur Mozart leikur á hljóðfæri

Tónskáld höfðu gaman af því að semja allskyns mismunandi tónlist fyrir þessi nýju, fjölbreyttu hljóðfæri. Þar má til dæmis nefna tríó, strengjakvartetta og sinfóníur.

Á klassíska tímabilinu jukust einnig vinsældir kóra og ekki síður óperusýninga.

Nokkur af þekktustu tónskáldum klassíska tímabilsins eru Haydn, Mozart og Glück. Tvö af þekktustu tónskáldunum sem sömdu tónlist bæði á klassíska og rómantíska tímabilinu eru Beethoven og Schubert.

 

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s