d
Tónlistarsaga – Íslensk tónskáld – upplýsingar
Sögustund

Tónlistarsaga

Íslensk tónskáld

Við Íslendingar áttum ekki „alvöru“ tónskáld fyrr en í kringum árið 1900, þó að þá hafi tónskáld í Evrópu verið að semja tónlist í mörg hundruð ár.  Hér er stutt umfjöllun um nokkur íslensk tónskáld og nokkur dæmi um þeirra tónverk.

Árni Thorsteinsson (1870-1962). Hann lærði lögfræði og ljósmyndun í Kaupmannahöfn í kringum árið 1890.

Hann samdi eingöngu sönglög en þau urðu mörg mjög vinsæl.

Árni Thorsteinsson (1870-1962)

Nótt. Lag eftir Árna Thorsteinsson, ljóð eftir Magnús Gíslason. Flytjendur Unnsteinn Árnason og Zita Tschirk.

Kirkjuhvoll. Lag eftir Árna Thorsteinsson, ljóð eftir Guðmund Guðmundsson skólaskáld. Söngvari Stefán Íslandi. Píanóleikari óþekktur.

Jón Leifs (1899-1968)

Jón Leifs var fyrsta „alvöru“ tónskáldið okkar. Hann var þekktur sem hljómsveitarstjóri um allan heim. Hann stjórnaði fyrstu sinfóníutónleikum sem fram fóru á Íslandi árið 1926.

Fyrst á ferlinum samdi hann lítil píanóverk sem voru byggð á íslenskum þjóðlögum en síðar samdi hann stór og mikil tónverk fyrir sinfóníuhljómsveitir. Hann var svolítið óvenjulegur karakter og vildi meira að segja verða kóngur yfir Íslandi!

Jón Leifs (1899-1968)

Hljómsveitarverkið Hekla eftir Jón Leifs. Flytjandi: MusicaNova Orchestra frá Bandaríkjunum.

Jórunn Viðar (1918-2017)

Jórunn lærði tónsmíðar í Þýskalandi og Bandaríkjunum. Hún var fyrsta íslenska kvikmyndatónskáldið (kvikmyndin er Síðasti bærinn í dalnum frá 1950). Hún útsetti mjög mikið af íslenskri þjóðlagatónlist og samdi einnig mikið af tónlist sem sótti efnivið sinn í íslensk þjóðlög.

Langfrægasta tónverk Jórunnar er Það á að gefa börnum brauð sem margir halda að sé þjóðlag.

Jórunn Viðar (1918-2017)

Hljómsveitarverkið Eldur eftir Jórunni Viðar. Flytjandi: Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hljómsveitarstjóri: Daníel Bjarnason.

Óvenjuleg útgáfa af þekktasta tónverki Jórunnar, Það á að gefa börnum brauð. Flytjendur eru hljómsveitin Rock Paper Sisters.

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013)

Þorkell lærði tónsmíðar í Bandaríkjunum. Hann samdi mjög mikið af tónlist og líklega meira en flest önnur íslensk tónskáld. Hann samdi til dæmis sinfóníur, konserta og óperur en er samt langþekktastur fyrir kórtónverkin sín.

Þorkell Sigurbjörnsson (1938-2013)

Heyr, himna smiður. Lag: Þorkell Sigurbjörnsson, ljóð: Kolbeinn Tumason (1173-1208). flutt af enska sönghópnum VOCES8. 

Jökulljóð eftir Þorkel Sigurbjörnsson. Flytjandi: Sinfóníuhljómsveit Íslands, stjórnandi: Vladimir Ashkenazy.

Atli Heimir Sveinsson (1938-2019)

Atli Heimir lærði tónsmíðar í Þýskalandi og Hollandi. Hann var að mörgu leyti þekktur fyrir frekar nútímaleg og ómstríð tónverk en samdi líka sönglög sem nær allir Íslendingar þekkja, eins og til dæmis Kvæðið um fuglana („Snert hörpu mína“) og Afmælisdigtur („Í Skólavörðuholtið hátt“).

Atli Heimir Sveinsson (1938-2019)

Kvæðið um fuglana. Lag: Atli Heimir Sveinsson, ljóð: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Flytjendur: Sinfóníuhljómsveit Íslands, skólakór Kársness, Gradualekór Langholtskirkju og félagar úr Graduale Nobili. Stjórnandi: Daníel Bjarnason. Útsetning: Hrafnkell Orri Egilsson og Marteinn H. Friðriksson.

Afmælisdiktur eftir Atla Heimi Sveinsson. Þórbergur Þórðarson samdi textann sem þó heyrist ekki í þessari útgáfu sem er eingöngu leikin á hljóðfæri. Hljóðfæraleikararnir eru Sigrún Eðvaldsdóttir á fiðlu og Selma Guðmundsdóttir á píanó.

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s