d
Tónlistarsaga – Barokktímabilið – Upplýsingar
Sögustund

Tónlistarsaga

Barokktímabilið

Barokktímabilið: frá um það bil árinu 1600 til 1750.

 

Barokktímabilið kom á eftir endurreisnartímabilinu og næsta tímabil á eftir heitir klassíska tímabilið.

 

Barokktónlist einkennist af:

1 – Löngum og flæðandi laglínum með allskyns skrautnótum, eins og til dæmis trillum.

2 – Lágværri og háværari tónlist til skiptis, t.d. einleikur og svo heil hljómsveit. Stundum er líka “bergmál” í tónlistinni þar sem lína er leikin sterkt og svo sama lína aftur en nú veikt.

3 – Kontrapunkti, þegar tvær eða fleiri laglínur eru leiknar í einu en jafnvel ekkert hljóðfæri leikur hljóma.

4 – Hljóðfærinu sembal sem er gamalt hljómborðshljóðfæri. Oft spilaði selló bassalínur með sembalnum og þau tvö hljóðfæri saman eru þá kölluð “basso continuo”.

 

Þýska tónskáldið Johann Sebastian Bach (1685-1750)
Ítalska tónskáldið Antonio Vivaldi (1678-1741)

Hér fyrir neðan er dæmi um basso continuo og í þessu tónverki er það fagott sem leikur laglínuna á meðan basso continuo (selló og semball) sjá um undirleikinn. Verkið heitir Les Sauvages og er samið af Jean-Philippe Rameau. Hljóðfæraleikarar eru Jeffrey Lyman á fagott, Helen Peyrebrune á selló og Joseph Gascho á sembal.

 

“Barokk” er nefnt eftir barokkperlum sem eru óreglulegar og jafnvel hálf-vanskapaðar perlur (myndu sumir segja). Af hverju var þetta tímabil þá nefnt barokk? Það gerðist af því sumu tónlistarfólki á nítjándu öld fannst tónlistin eftir til dæmis Bach og Händel hreinlega of skrautleg og yfirdrifin.

Í dag er engin slík neikvæð tenging við þetta tímabil en við köllum það samt enn barokktímabilið.

Nokkrar tegundir tónlistar urðu til á barokktímabilinu. Þar má nefna konserta og sinfóníur, sónötur, kantötur og oratorio. Einnig varð óperuformið til á þessu tímabili og fúgur voru vinsælar.

Mörg frægustu tónskáld tímabilsins bjuggu á Ítalíu, til dæmis Monteverdi, Corelli og Vivaldi. Öll eftirfarandi tónlistarform eiga sér ítalskar rætur: kantatan, konsertinn, sónatan, óratoríóið og óperan.

Síðar á barokktímabilinu voru helstu stjörnurnar þýskar: Þeir Johann Sebastian Bach og Georg Frideric Händel. Bach samdi fleiri en 1000 tónverk á ferlinum.

Eins og áður sagði var tónlistarformið „fúga“ vinsælt á tímabilinu. Hér er upptaka af tónverkinu „Toccata og fúga í D moll“ eftir Johann Sebastian Bach. Orgelleikarinn er Hans-André Stamm.

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður KÍ styrkti hönnun og þróun vefsins.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s