Sögustund
Tónlistarsaga
Barokktímabilið
Barokktímabilið: frá um það bil árinu 1600 til 1750.
Barokktímabilið kom á eftir endurreisnartímabilinu og næsta tímabil á eftir heitir klassíska tímabilið.
Barokktónlist einkennist af:
1 – Löngum og flæðandi laglínum með allskyns skrautnótum, eins og til dæmis trillum.
2 – Lágværri og háværari tónlist til skiptis, t.d. einleikur og svo heil hljómsveit. Stundum er líka “bergmál” í tónlistinni þar sem lína er leikin sterkt og svo sama lína aftur en nú veikt.
3 – Kontrapunkti, þegar tvær eða fleiri laglínur eru leiknar í einu en jafnvel ekkert hljóðfæri leikur hljóma.
4 – Hljóðfærinu sembal sem er gamalt hljómborðshljóðfæri. Oft spilaði selló bassalínur með sembalnum og þau tvö hljóðfæri saman eru þá kölluð “basso continuo”.
Hér fyrir neðan er dæmi um basso continuo og í þessu tónverki er það fagott sem leikur laglínuna á meðan basso continuo (selló og semball) sjá um undirleikinn. Verkið heitir Les Sauvages og er samið af Jean-Philippe Rameau. Hljóðfæraleikarar eru Jeffrey Lyman á fagott, Helen Peyrebrune á selló og Joseph Gascho á sembal.
“Barokk” er nefnt eftir barokkperlum sem eru óreglulegar og jafnvel hálf-vanskapaðar perlur (myndu sumir segja). Af hverju var þetta tímabil þá nefnt barokk? Það gerðist af því sumu tónlistarfólki á nítjándu öld fannst tónlistin eftir til dæmis Bach og Händel hreinlega of skrautleg og yfirdrifin.
Í dag er engin slík neikvæð tenging við þetta tímabil en við köllum það samt enn barokktímabilið.
Nokkrar tegundir tónlistar urðu til á barokktímabilinu. Þar má nefna konserta og sinfóníur, sónötur, kantötur og oratorio. Einnig varð óperuformið til á þessu tímabili og fúgur voru vinsælar.
Mörg frægustu tónskáld tímabilsins bjuggu á Ítalíu, til dæmis Monteverdi, Corelli og Vivaldi. Öll eftirfarandi tónlistarform eiga sér ítalskar rætur: kantatan, konsertinn, sónatan, óratoríóið og óperan.
Síðar á barokktímabilinu voru helstu stjörnurnar þýskar: Þeir Johann Sebastian Bach og Georg Frideric Händel. Bach samdi fleiri en 1000 tónverk á ferlinum.
Eins og áður sagði var tónlistarformið „fúga“ vinsælt á tímabilinu. Hér er upptaka af tónverkinu „Toccata og fúga í D moll“ eftir Johann Sebastian Bach. Orgelleikarinn er Hans-André Stamm.