d
Tónlistarsaga – Mozart – Upplýsingar
Sögustund

Tónlistarsaga

Wolfang Amadeus Mozart

Leopold Mozart var mjög frægur fiðlukennari sem átti heima í borginni Salzburg sem er í Austurríki.

Hann átti tvö börn, stelpu sem hét Maria Anna Walburga Ingatia en var kölluð Nannerl og yngri strák sem hét Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus. Hann var kallaður Wolfgang Amadeus.

Leopold hafði kennt dóttur sinni Nannerl á bæði fiðlu og píanó og hún var ansi flink.

Wolfgang var bara um 4ra ára þegar hann fór að herma eftir eldri systur sinni sem var að spila á píanóið og gat hermt rétt eftir píanóæfingunum hennar án þess að hafa nokkurn tímann lært á píanó. Leopold ákvað þá að kenna litla drengnum Wolfgang á píanó og hætti meira að segja í vinnunni sinni til þess að vinna við það í fullri vinnu að kenna Wolfgang. Börnin voru ekki bara í tónlistarnámi heldur lærðu líka heima nokkur tungumál og til dæmis stærðfræði.

Wolfang litli var ótrúlega fljótur að læra og náði alveg ótrúlegum framförum á píanóið og samdi sitt fyrsta píanótónverk þegar hann var aðeins 5 ára.

Leopold Mozart (1719-1787)
Wolfang Amadeus Mozart (1756-1791)

Svona hljómar tónverkið sem hann samdi svona ungur:

Þegar Wolfgang var 6 ára fór faðir hans með hann og systur hans til Vínarborgar til að sýna öllu fína fólkinu þar hversu flink þau væru. Þar spiluðu þau fyrir kóngafólk og annað mikilvægt fólk. Þegar Wolfgang litli spilaði fyrir keisarahjónin, dætur þeirra og vini var talað um að þau hefðu aldrei heyrt annað eins.

Fyrstu tónsmíðarnar hans Wolfgang voru prentaðar og gefnar út þegar hann var 7 ára.

Þegar hann var sjö ára fór Wolfang líka í tónleikaferð til Parísar og fékk þar frábæra dóma frá dagblöðunum sem skrifuðu um að hann gæti spilað tónverk eftir frægustu tónskáld í heimi og væri líka orðið gott tónskáld. Þau skrifuðu að hann væri orðinn miklu betri heldur en flestir fullorðnir píanóleikarar.

Hann var aðeins 8 ára þegar hann samdi sína fyrstu sinfóníu.

Hér fyrir neðan geturðu hlustað á sinfóníu sem hann samdi töluvert síðar, Sinfóníu númer 40 (K. 550):

Átta ára spilaði Wolfang í Buckinghamhöll og spilaði í heila þrjá klukkutíma fyrir ensku konungshjónin. Þau voru svo í London í heila 15 mánuði.

Hann spilaði svo um alla Evrópu og kom ekki aftur heim fyrr en hann var orðinn 10 ára. Þá fór hann á fullt í nám í allskyns tónfræði og hljómfræði og hvernig ætti að semja enn betri tónlist.

Þegar hann var 14 ára fór hann í fyrsta sinn til Ítalíu, sem var talið aðaltónlistarlandið á þessum tíma. Þar sló hann í gegn og var í Mílanó beðinn um að semja óperu þó hann væri svona ungur.

Hér er atriði úr Töfraflautunni sem hann samdi árið 1791. Hann dó nokkrum mánuðum síðar þannig að þetta var síðasta óperan sem hann samdi:

Sama árið var hann í heimsókn í Vatíkaninu í Róm og tókst þá að taka afrit af tónverki með heilanum á sér – þetta tónverk (Miserere eftir Allegri) var stranglega bannað að afrita og það mátti bara flytja það í Vatíkaninu. En engum hafði dottið í hug að einhver gæti lært allt tónverkið utanað með því að heyra það einu sinni og skrifa svo rétt niður allar nóturnar seinna um kvöldið. En það gat Mozart.

Þó þetta tónverk sé kannski ekki það flóknasta í heimi er samt ótrúlegt afrek að ná að skrifa það allt niður eftir minni, eftir að hafa aðeins heyrt það einu sinni. Hér er upptaka af umræddu tónverki:

 

Mozart samdi tónlist í öllum tónlistarstílum sem þekktust á klassíska tímabilinu og hann var algjör meistari í þeim öllum.

Hann giftist konu sem hét Constanze og átti með henni 6 börn en aðeins tvö þeirra lifðu.

Mozart lifði ekki lengi en hann náði á þeim tíma að semja rúmlega 600 tónverk. Þar á meðal allavega 41 sinfóníu (sumir segja allt að 68 sinfóníur), 27 píanókonserta, 7 fiðlukonserta, 4 konserta fyrir franskt horn, 8 aðra konserta, mjög mikinn fjölda af allskonar sónötum fyrir píanó og fyrir fiðlu, allavega 23 strengjakvartetta, 18 messur og 22 óperur.

 

Síðasta tónverkið sem hann samdi, og náði reyndar ekki að klára áður en hann dó aðeins 35 ára, var dauðamessa eða svokallað Requiem. Þetta tónverk er fyrir hljómsveit, stóran kór og fjóra einsöngvara og er mjög glæsilegt.

Hér má heyra Requiem eftir W.A. Mozart og fylgjast með nótum á meðan. Kórinn er Monteverdi kórinn, hljómsveitin heitir English Baroque Soloists og stjórnandi er John Eliot Gardiner:

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s