m
Öpp og forrit – Nótnaskrift

Öpp og forrit - nótnaskrift

Hvort sem þú vilt skrifa út nótur að eigin tónsmíðum og lögum eða gera útsetningar af lögum eftir aðra eru hér nokkur nótnaskriftarforrit fyrir þig að velja úr.

Ókeypis nótnaskriftarforrit sem hægt er að nota á Windows og Mac tölvum. Forritið er mjög vinsælt meðal tónlistarnemenda og annarra sem vilja getað skrifað út fallegar nótur en vilja ekki eyða miklum pening í forritin. Nýjasta útgáfa forritsins er orðin mjög öflug og þægileg í notkun og mörg ykkar ættu ekki að þurfa öflugra nótnaskriftarforrit en þetta. Það er hægt að hlaða forritinu niður a www.musescore.com.

Það eru mörg hjálpleg myndbönd á Youtube-rás framleiðandans. Hér er eitt þeirra en þú getur smellt á hlekkinn fyrir ofan til að sjá önnur myndbönd:

Langvinsælasta nótnaskriftarforrit í heimi sem mjög margir tónlistarskólar og atvinnutónskáld nota og til eru útgáfur bæði fyrir tölvur og fyrir snjalltæki. Verðlagningin á forritinu er eilítið flókin þar sem hægt er að kaupa mismunandi útgáfur – ein þeirra (Sibelius First) er ókeypis, önnur heitir Sibelius Artist og leyfir þér að skrifa tónverk fyrir allt að 16 hljóðfæri (að spila í einu) og sú þriðja heitir Sibelius Ultimate og er full útgáfa án takmarkana. Hægt er að leigja Sibelius Artist fyrir $10 á mánuði og Sibelius Ultimate fyrir $20 á mánuði. Smellið hér til að skoða alla möguleikana og til að kaupa forritið.

Finale er annað nótnaskriftarforrit sem hefur verið til lengi og er uppfært á hverju ári með nýjum möguleikum. Mörg atvinnutónskáld og útsetjarar nota Finale en þó líklega mun færri en þau sem nota Sibelius. Sá sem þetta ritar hefur verið Finale-notandi frá árinu 1993 og vill helst ekkert annað nótnaskriftarforrit nota. Það er til ókeypis útgáfa sem heitir Finale Notepad (sækið það hér) en forritið í fullri stærð kostar $299 fyrir flesta notendur. Hér er hægt að kaupa það.

Dorico er tiltölulega nýtt á markaðnum (miðað við Finale og Sibelius) en er framleitt af fyrirtæki sem hefur verið mjög lengi í bransanum. Dorico fyrir tölvur er mjög öflugt og töluverður fjöldi atvinnutónlistarfólks hefur ákveðið að skipta frá hinum stóru forritunum yfir í Dorico. Dorico er til í nokkrum útgáfum: Dorico SE er frekar einfalt en er ókeypis. Dorico Elements er líklega nóg fyrir langflest tónlistarfólk (og kostar €99) en síðan er einnig til Dorico Pro sem er hugsað fyrir þau sem skrifa til dæmis fyrir stórar sinfóníuhljómsveitir. Sú útgáfa kostar €579. Hægt er að skoða allar útgáfur og kaupa hér.

Einnig er til Dorico fyrir iPad sem er ókeypis að nota fyrir nótur fyrir einn hljóðfæraleikara en svo er hægt að greiða fyrir áskrift til að geta skrifað nótur fyrir fleiri að spila í einu. Það er hægt að hlaða appinu niður hér.

Sá sem þetta ritar hefur ekki prófað Notion 6 en hér virðist vera um að ræða mjög öflugt nótnaskriftarforrit sem býður upp á allt sem atvinnufólk í tónlist gæti nokkurn tímann þurft og gerir tónskáldum til dæmis auðveldara að semja kvikmyndatónlist því hægt að samþætta myndbandsspilun við tónlistarforritið. Verðið er einnig töluvert lægra en dýrustu útgáfur samkeppnisaðilanna Finale, Sibelius og Dorico en þegar verðið á Notion 6 var athugað í janúar 2023 var það aðeins 22.671 krónur. Hér er hægt að kaupa Notion 6.

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s