m
Öpp og forrit – Upptökur

Öpp og forrit - upptökur

Nú í dag er hægt að nota tölvur til að taka upp mjög flókin upptökuverkefni með fjölmörgum rásum. Til að ná sem mestum gæðum er þó mikilvægt að eiga annan búnað, eins og til dæmis góða hljóðnema og utanáliggjandi hljóðkort. Þegar þú leitar á netinu að upptökuforritum er gott að vita að þau heita á ensku „Digital Audio Workstation“ sem er oft skammstafað „DAW“. 

Ef frá er talið Garageband er almennt talið best að nota upptökuforrit sem eru hönnuð fyrir tölvur (en ekki spjaldtölvur eða snjallsíma).

 

Sem dæmi um uptökuforrit má nefna Garageband, Logic Pro, Nuendo, FL Studio, Ableton Live, Cubase, ProTools, Reaper og Studio One

Garageband

Garageband er líklega þekktasta upptökuforritið. Það er einfalt í notkun og er gjarnan notað sem fyrsta upptökuforritið sem ungir nemendur eru þjálfaðir í að nota. Garageband er eingöngu til fyrir iOS tæki (iPad og iPhone) og Apple tölvur. Það er hægt að gera margt flott með Garageband en þó er það of takmarkað fyrir flesta sem hafa áhuga á því að gera fullar upptökur og gefa þær út.

Verð (febrúar 2023): Ókeypis

Logic Pro X

Logic Pro X er framleitt af Apple og er eingöngu hægt að nota á Apple tölvum. Um er að ræða upptökuforrit í fullri stærð, það er að segja að það ætti að vera hægt að gera allt með þessu upptökuforriti til þess að gera upptökur og ganga frá þeim til útgáfu. Kostur fyrir fólk sem þekkir Garageband er sá að notendaumhverfið í forritunum tveimur er að mörgu leyti svipað.

Verð (febrúar 2023): $200

Studio one

Studio One er mjög vinsælt upptökuforrit og trónir á toppnum á nokkrum listum yfir þau upptökuforrit sem talin eru best. 

 

Verð (febrúar 2023): $399

FL studio

FL Studio er sérstaklega áhugavert fyrir þau sem langar að búa til sína eigin trommutakta og vinna með endurtekna takta („lúppur“). Það er einnig hægt að taka upp hljóð í því og þó það sé kannski ekki jafn öflugt í slíku og sum önnur forrit hér á listanum er umhverfið mjög áhugavert fyrir fólk sem vill vinna aðeins öðruvísi og sérstaklega fólk sem vinnur mikið með takt.

Verð (febrúar 2023): frá $99

Ableton Live

Ableton Live kom fyrst út árið 2001 og hefur, eins og önnur forrit hér á listanum, vaxið og dafnað frá því síðan þá og forritið er vinsælt. Forritið er selt í þremur útgáfum, sem kosta (í febrúar 2023) $99, $449 og $779.

Pro tools

Pro Tools hefur lengi verið aðalhugbúnaðurinn sem er notaður í mörgum atvinnuhljóðverum um allan heim.

 

Verð (febrúar 2023): $10 á mánuði fyrir nemendur og $30 á mánuði fyrir aðra.

Cubase

Cubase kom fyrst á markaðinn árið 1989 og því liggur gífurleg reynsla á bakvið nýjustu útgáfur þess. Forritið hefur alla tíð verið vinsælt.

Cubase er til í nokkrum útgáfum. Sú ódýrasta kostar (í febrúar 2023) €99 en sú dýrasta kostar €579.

reaper

Reaper er einnig töluvert vinsælt hljóðupptökuforrit. Sá er þetta ritar hefur ekki prófað það en veit að mörgum finnst mjög gott að nota þetta forrit. Verðið sakar svo ekki, því fyrir langflesta notendur kostar forritið ekki nema $60 og hægt er að prófa það frítt í 60 daga áður en það er keypt.

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s