d
Tónlistarsaga – Endurreisnartímabilið – Upplýsingar
Sögustund

Tónlistarsaga

endurreisnartímabilið

Endurreisnartímabilið varði frá í kringum árið 1400 til ársins 1600.

Á endurreisnartímabilinu voru gerð allskyns frábær listaverk sem við þekkjum enn í dag og í því samhengi var Flórens á ítalíu mjög mikilvæg borg. Stjórnmálin á Ítalíu voru nokkuð stöðug á þessum tíma og eins var almenningur farinn að ná að mennta sig og læra að lesa.

 

Tónlist var nú notuð til skemmtunar en ekki bara fyrir trúarbrögð. Venjulegar fjölskyldur fóru að syngja og dansa og spila á hljóðfæri og slíkt var ekki lengur einkaeign ríka og fína fólksins. Fólk eignaðist hljómborð og önnur hljóðfæri og ríkustu fjölskyldurnar réðu flinka hljóðfæraleikara til að koma og spila fyrir þau heima.

 

Endurreisnartónskáld byrjuðu að nota þríundina, sem fram að þessu hafði verið talin mjög ljótt tónbil. Nú var hægt að stjórna því hvort tónlist hljómaði glaðlega eða sorglega, því það er þríundin sem stjórnar því hvort að lag er í dúr eða moll. Á 15. öld var farið að nota heila þríhljóma sem eru hljómar svipaðir þeim sem við þekkjum í dag.

Enska tónskáldið Thomas Tallis (1505-1585)
Ítalska tónskáldið Giovanni Pierluigi da Palestrina (1525-1594)

Þó að stærstur hluti endurreisnartónlistar hafi verið trúarlegs eðlis var kirkjan samt farin að sleppa tónskáldum aðeins frá sér og leyfðu þeim að semja tónlist sem tengdist listum, rúmfræði og jafnvel öðrum gömlum trúarbrögðum í stað þess að semja bara um trúarleg efni.

Á þessu tímabili gerðist það að tónskáld urðu fræg og fólk vildi fylgjast með því hvað þau gerðu í sínu daglega lífi. Eitt slíkt frægt tónskáld var Englendingurinn Thomas Tallis sem vann fyrir fjóra mismunandi konunga og drottningar. Hann er talinn eitt allra besta trúarlega tónskáld þessa tímabils. Hann og William Byrd fengu einkaleyfi hjá Elísabet fyrstu Englandsdrottningu til að prenta tónlist í Englandi.

Hér má heyra sönghópinn The King’s Singers syngja mótettuna If Ye Love Me eftir Thomas Tallis.

Ein af aðalástæðunum fyrir því að tónlist gat loks verið flutt á svipaðan hátt af mismunandi hópum á endurreisnartímabilinu er sú að prentvélin var fundin upp í kringum árið 1450 og því var nú hægt að fjöldaframleiða nótur sem voru alltaf nákvæmlega eins.

Á endurreisnartímabilinu urðu til hópar hljóðfæraleikara sem voru nefndir eftir því hvernig tónlist þeir spiluðu. T.d. var Pavane hægur dans í 2/4. Eftir hann var oft spilaður Galliarde sem var hraðari og í 3/4. Curante var frönsk tegund af hljómsveit sem yfirleitt lék tónlist í 3/4 eða 6/8 og í henni voru tvær fiðlur, víóla og semball.

Consort var dans sem leikinn var af einu hljóðfæri eða litlum hljóðfærahóp. Orðið „Consort“ á ensku er notað yfir hóp af svipuðum hljóðfærum.
„Brotinn Consort“ er hópur með mismunandi hljóðfærum og þetta fyrirbæri varð á barokktímabilinu (sem kom síðar) að barokkhljómsveit, sem enn síðar varð sinfóníuhljómsveit.

Madrigali er verk sem er ekki trúarlegt, yfirleitt sungið í mörgum röddum og án undirleiks.

 

Kórtónlist án undirleiks var vinsæl á þessum tíma. Hljóðfæratónlist þróaðist líka áfram en var ekki jafn vinsæl og kórtónlistin.

Hér fyrir neðan syngur hópurinn Voices of Ascension verkið Exsultate Deo eftir Palestrina.

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s