d
Tónlistarsaga – Rómantíska tímabilið – Upplýsingar
Sögustund

Tónlistarsaga

Rómantíska tímabilið

Hið svokallaða rómantíska tímabil stóð um það bil frá árinu 1820 til 1910 en þó eru einhver tónskáld sem talað er um að hafi samið „rómantíska“ tónlist en sömdu samt tónlist utan þessa tímabils.  

Orðið „rómantíska“ ruglar mörg okkar í dag en hér er ekki verið að tala eingöngu um tónlist um ástarsambönd og stefnumót eins og hægt væri að halda. Þó er mikill tilfinningahiti í tónlist frá tímabilinu og segja mætti að hún sé almennt séð um einhverskonar tilfinningar eða lýsi tilfinningum.

Ástæður þess að fólk samdi tónlist á tímabilinu höfðu einnig breyst frá fyrri tímabilum. Á fyrri tímum var tónlist oft eingöngu eða aðallega samin fyrir kirkjuathafnir og stundum eingöngu til skemmtunar. Tónskáld á rómantíska tímabilinu höfðu ekki miklar áhyggjur af því að skemmta fólki og spáðu mörg ekki mikið í kirkjulegri tónlist heldur. Nei, tónlist þeirra var samin til þess að túlka allskyns tilfinningar og áhorfendur þurftu einfaldlega að sætta sig við það. Þó voru sum tónskáldanna upptekin af því að semja ákveðna tegund af messum, en sú tegund heitir Requiem eða „dauðamessa“.

 

Hið mikla ítalska óperutónskáld Guiseppe Verdi (1813-1901)
Norska tónskáldið Edvard Grieg (1843-1907)

Einnig voru mörg rómantísku tónskáldanna upptekin af þjóðernisstefnu og meðal þeirra má nefna tékkneska tónskáldið Smetana og Norðmanninn Edvard Grieg. Hér fyrir neðan leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar stuttan kafla úr lengra verki eftir Edvard Grieg. Þessi tónlist er svo vinsæl að það er mjög líklegt að þú hafir heyrt hana áður.

Í rómantískum óperum eru oft miklar tilfinningar og drama í spilinu og þær enda margar á einhverskonar hræðilegan hátt.

Sem dæmi má nefna verkið Symphonie Fantastique eftir franska tónskáldið Hector Berlioz. Það fjallar um söguhetju sem verður ástfangin, myrðir konuna sem hann er ástfanginn af, er svo hálshöggvinn og loks dansar norn fyrir hann í handanheimum.

Ef þú þekkir ekki mikið af gamalli tónlist eru samt töluverðar líkur á því að þú þekkir töluvert magn af rómantískri tónlist, allavega þegar þú heyrir hana þó þú munir ekki endilega hvað hún heitir. Þessi tónlist er notuð mjög mikið í sjónvarpsþætti, kvikmyndir og tölvuleiki.

Langþekktasta tónskáldið frá rómantíska tímabilinu er Ludwig van Beethoven frá Bonn í Þýskalandi, enda má segja að hans tónlist hafi verið upphafið af þessu tímabili. Tónlistin hans þótti svo ný og óvenjuleg að áhorfendur voru margir í uppnámi við að heyra þessa „furðulegu“ tónlist.

Önnur mjög vel þekkt rómantísk tónskáld eru til dæmis Þjóðverjarnir Richard Wagner og Robert Schumann, hinn ítalski Guiseppe Verdi, hinn áðurnefndi Edvard Grieg og Pyotr Illich Tchaikovsky frá Rússlandi.

Hér leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands eitt allra þekktasta rómantíska tónverkið, 5. sinfóníu Beethovens. Eva Ollikainen stjórnar hljómsveitinni. Ein af ástæðunum fyrir því að mörgum finnst fyrsti kaflinn í 5. sinfóníunni svo frábær er að tónskáldið notar upphafstónana frægu aftur og aftur í kaflanum og býr til úr þeim flókinn vef.

 

En hvað breyttist á rómantíska tímabilinu miðað við það klassíska sem kom á undan? Tónverkin urðu bæði lengri og háværari (fleiri hljóðfæri spiluðu í einu), sterku tónarnir urðu enn sterkari og veiku tónarnir enn veikari, tónskáld notuðu frekar hæstu og lægstu tóna hljóðfæranna en áður. Hljómsveitir voru semsagt töluvert stærri og í stærstu tónverkunum var notast við hljómsveitir með hátt í 100 hljóðfæraleikurum og 200 manna kór. Annað sem þið takið eftir þegar þið hlustið á rómantíska tónlist er að frjálslegar er farið með hraða en áður. Gott dæmi er um það hvernig hörpuleikarinn teygir hraðann til og frá nálægt upphafi næstu upptöku.

Hér er upptaka af flutningi Berlínarfílharmóníunnar undir stjórn Daniel Barenboim af einu þekktasta tónverki Tchaikovsky, Dans blómanna úr ballettinum Hnotubrjótnum:

Pyotr Illich Tchaikovsky (1840-1893)

Vefurinn tónfræði.is er rekinn af tónlistarkennurunum Christinu van Deventer og Dr. Braga Þór Valssyni.

Starfsmenntunarsjóður FT styrkti hönnun og þróun vefsins. Sterkar Strandir, Þróunarsjóður námsgagna og Námsefnissjóður Sítón og Menntamálaráðuneytisins styrktu viðbætur við hann.

Hafið endilega samband í tölvupósti til að koma með tillögur að nýju efni eða bjóðast til að framleiða efni.

T ó n f r æ ð i . i s